Vísindamenn þróa baunir sem ekki valda vindgangi

Vísindamenn frá Venesúela hafa þróað aðferð til að rækta næringarríkar baunir sem ekki valda neinum vindgangi. Baunir eru ódýr matur og þess vegna mikilvægar, einkum í þróunarlöndum, en talið er að margir forðist þær vegna þeirra „félagslegu aukaverkana“ sem þær hafa.

Vísindamennirnir, sem starfa við Simon Bolivar-háskóla í Caracas, segja að með því að láta baunirnar gerjast í ákveðnum bakteríugróðri megi minnka vindmyndandi efni í þeim og auka næringargildi þeirra. Rannsóknir þeirra eru birtar í tímaritinu Journal og the Science of Food and Agriculture.

Vindgangur myndast af völdum baktería sem búa í þörmunum og brjóta niður efni í mat, eins og til dæmis trefjar, sem ekki hafa verið meltar ofar í meltingarveginum. Baunir, eins og til dæmis svartar baunir, sem eru mikið borðaðar í Mið- og Suður-Ameríku, innihalda mikið af slíkum efnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert