Forsmáðir menn geta verið hættulegir

Í Asíu og Norður-Afríku þykir óæskilegt að eignast stúlkur. Af þessum sökum eru karlar fleiri en konur, og því hefur orðið til ný lágstétt kynsveltra karla. Þessir menn geta orðið árásargjarnir og því eykst ofbeldi í samfélaginu, að því er segir í nýrri bresk-kínverskri rannsókn.

Frá þessu greinir norski vísindavefurinn forskning.no.

Víða í Asíu og Norður-Afríku vilja foreldrar helst eignast drengi, og er stúlkufóstrum í mörgum tilvikum annaðhvort eytt eða að stúlkurnar deyja fljótt eftir fæðingu vegna slæmrar ummönnunar. Samkvæmt rannsókn Therese Hesketh, við University College í London, og Zhu Wei Xing, við Zhejiang-háskóla í Kína, getur þetta leitt til þess að eftir um fimmtán ár verði karlar um 15% fleiri en konur sumstaðar í Kína og Indlandi.

Þessi „umframfjöldi“ karla gerir að verkum að konur geta verið vandlátari í vali á förunautum, og þá myndast stétt ómenntaðra karla af lágum stigum sem ekki eiga von um kynferðislegt samband við konur, og því síður að stofna fjölskyldu.

Margir þessara karla eru úr dreifbýli, þar sem sterkar hefðir eru fyrir fjölskylduböndum. Hætta er á að körlunum þykir sér því hafnað í tvennum skilningi og það geri þá árásargjarna.

Í rannsókninni segir að karlar sem lendi í þessari stöðu geti leiðst út í hryðjuverk og skipulagða glæpastarfsemi. Því sé afar mikilvægt að stemma stigu við breytingunni á kynjahlutföllunum í þeim löndum sem um er að ræða.

Hesketh og Zhu segja að breytingin hafi reyndar haft þær afleiðingar að staða kvenna í þessum löndum hafi styrkst. Konurnar hafi nýtt sér þessa „auknu eftirspurn“ m.a. til að fá meiru ráðið í hjónabandi og það muni að líkindum smám saman leiða til breyttra viðhorfa til stúlkubarna og því geti kynjahlutfallið jafnast á ný.

mbl.is