Bresk stjórnvöld styrkja þróun skallalyfja

Bresk stjórnvöld ætla að leggja sem svarar rúmum 250 milljónum króna til þróunar skallalyfja. Breski vísindamálaráðherrann, Sainsbury lávarður, segir það stefnuna að Bretlandi verði leiðandi í heiminum í hárgræðslu. Hefur styrkur verið veittur til þróunarverkefnis sem á að veita ódýrari og skjótari árangur en hingað til hefur verið fyrir hendi.

Nýja aðferðin felst í því að hárfrumur eru ræktaðar í tilraunaglasi og þeim síðan sprautað í hvirfilinn. Það er breska fyrirtækið Intercytex sem er að þróa þessa aðferð. Stofnandi þess, Paul Kemp, segir að áætlað sé að „góð skallameðferð geti verið allt að eins milljarðs punda virði í Bretlandi, og margfalt meira á alþjóðavísu“.

Breski fréttavefurinn Ananova hefur þetta eftir blaðinu The Sun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert