Talið að úlfum hafi fjölgað verulega í Suður-Skandinavíu í sumar

Vísindamenn telja að úlfastofninn í Noregi og Svíþjóð, sem var nærri þurrkaður út fyrir áratug, kunni að hafa vaxið verulega í sumar. Þetta telja náttúruverndarsinnar gleðitíðindi, en bændum þykja þetta uggvænlegar fréttir. Vitað er um 23 úlfapör í Suður-Skandinavíu, og hafi þau öll eignast hvolpa í sumar kann stofninn að hafa vaxið um ríflega 50%.

Frá þessu greinir fréttavefur Aftenposten. Pörin 23 kunna að hafa eignast samtals yfir eitt hundrað hvolpa, því úlfar eignast að meðaltali fimm hvolpa í hverjum burði. Þar með hefði úlfastofninn vaxið úr 130 dýrum, sem hann er nú álitinn telja, í um það bil 230. Miðað við 10% afföll væri stækkunin 59%.

mbl.is