Leggja til algert bann við þorskveiðum í Norðursjó

eftir Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

VÍSINDAMENN leggja til algert bann við þorskveiðum í Norðursjó á næsta ári eigi að takast að koma í veg fyrir að tegundin deyi út. Tilmælin eru sögð mikið áfall fyrir ríkisstjórnir og fiskiðnaðinn á svæðinu, sem höfðu gert sér vonir um, að aðgerðir síðustu ára til að draga úr veiðum hefðu reist þorskstofninn við að nýju.

Tilmæli vísindamannanna eru rökstudd í nýrri skýrslu Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES), sem er hluti af árlegri úttekt á ástandi nytjastofna í Norðaustur-Atlantshafi, sem unnin er af ráðgjafarnefnd um nýtingu fiskistofna (ACFM).

Björn Ævar Steinarsson, forstöðumaður veiðiráðgjafarsviðs og annar meðlimur Íslands í ráðgjafanefnd ACFM, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að hrygningarstofn þorsks í Norðursjó væri í sögulegu lágmarki eða um 36.000 tonn. Markmið ICES með banninu væri að auka stærð stofnsins í 70.000 tonn til að byrja með og að síðar væri stefnt að 150.000 tonna stofnstærð.

"Um þetta eru þjóðirnar sem taka þátt í veiðunum sammála," sagði Björn. "Evrópusambandið og Noregur samþykktu langtímanýtingaráætlun árið 2005 um að halda þorskstofninum yfir 70.000 tonnum. Það er mjög alvarlegt ástand að stofninn sé kominn niður í þessa stærð og mjög brýnt að ná hrygningarstofninum í það sem að er stefnt."

Ofveiði meginorsökin

Aðspurður um orsakir þessarar þróunar segir Björn að þær megi fyrst og fremst rekja til þess, að lengi hafi verið veitt langt umfram afrakstursgetu stofnsins.

"Veiðiálagið hefur verið alltof hátt. Brottkast og óskráðar landanir hafa numið á bilinu 25 til 50 prósentum af heildarveiðinni. Á undanförnum árum hefur landaður þorskafli á ársgrundvelli verið um 30.000 tonn en að teknu tilliti til brottkastsins og ólöglegrar löndunar er áætlað að aflinn hafi verið 55.000-75.000 tonn."

Björn segir jafnframt að á árunum 1985 til 1990 hafi landaður afli verið frá 125.000 og upp í 216.000 tonn en þar áður mest farið í 600.000 tonn.

"Allt frá árinu 1970 hefur hrygningarstofninn farið hratt minnkandi og hélst sú þróun stöðug alveg fram til ársins 1995, þegar kom góður árgangur og lyfting í hrygningarstofninum. Gunnar Stefánsson, prófessor við Háskóla Íslands, og tveir aðrir vísindamenn birtu á þeim árum grein í tímaritinu Nature, þar sem því var spáð að stofninn myndi hrynja. Nú hefur sú spá gengið eftir."

Óvíst með áhrif á þorskverð

Finnbogi Baldvinsson, forstjóri Icelandic Europe, sagði aðspurður um tilmæli vísindamannanna að slíkt bann myndi nær engin áhrif hafa á starfsemi fyrirtækisins.

"Sá þorskur sem við erum að vinna með kemur ekki úr Norðursjó. Bannið getur verið tvíeggjað. Þegar neikvæð umfjöllun um ákveðna tegund fer af stað þarf að koma því til skila að veiðar okkar Íslendinga séu stundaðar með ábyrgum hætti.

Það er jafnframt ómögulegt að segja til um hversu mikið verð á þorski gæti hækkað. Ef verðið á einni tegund hækkar umfram aðrar leita menn að valkostum og það er alltaf til valkostur," sagði Finnbogi Baldvinsson, þar sem hann var staddur í Lissabon.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert