Fjarskiptaumferð um Cantat-3 stöðvast í tíu daga vegna viðgerðar

Farice-1 ljósleiðarastrengur var tekinn í notkun í janúar 2004.
Farice-1 ljósleiðarastrengur var tekinn í notkun í janúar 2004.

Áætlað er að viðgerðarskipið Pacific Guardian verði komið á bilunarstað Cantat-3 sæstrengsins 13. janúar n.k., og að viðgerð ljúki 22. janúar. Stöðva þarf alla fjarskiptaumferð um strenginn 12. janúar og þar til viðgerð lýkur. Vegna erfiðra aðstæðna og veðurskilyrða kunna dagsetningar þessar að breytast, að því er segir í tilkynningu.

Um miðjan desember bilaði Cantat strengurinn og tók tæpar 20 klukkustundir að ljúka bráðabirgðaviðgerð á austurhluta strengsins til Evrópu. Á meðan voru allir háskólar landsins, að Hólaskóla undanskildum, Landspítalinn – háskólasjúkrahús, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og fjöldi rannsóknastofnana netsambandslaus við umheiminn.

Fjarskiptasamband Íslands við umheiminn er um tvo sæstrengi; hinn 12 ára gamla Cantat-3 og Farice sem var tekinn í notkun fyrir tveimur árum. Nýlega lagði nefnd á vegum Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra að þriðji strengurinn yrði lagður til þess að tryggja öruggt varasamband við útlönd.

Milli jóla og nýárs var tilkynnt að ríkisstjórnin hefði samþykkt tillögu Sturlu um að hefja undirbúning að lagningu nýs sæstrengs og samkvæmt upplýsingum frá samgönguráðuneytinu mun Sturla í janúar ræða við þá sem málið snertir, fulltrúa fjarskiptafyrirtækjanna, stjórn Farice og aðra hagsmunaðila.

Í frétt frá ráðuneytinu segir að ráðherra telji að til greina komi að stofna félag um lagningu nýja strengsins eða semja við Farice um verkefnið. Verði ákvörðun tekin á næstu vikum megi gera ráð fyrir að undirbúningur taki mestan hluta ársins og að nýr strengur verði tekinn í notkun síðla árs 2008. Kostnaður er áætlaður 2,8–3,9 milljarðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert