Ítarlega fjallað um aðdáendaráðstefnu EVE Online í Politiken

Frá aðdáendaráðstefnu EVE Online sem fram fór á Íslandi í …
Frá aðdáendaráðstefnu EVE Online sem fram fór á Íslandi í nóvember sl. mbl.is/Eggert

Í laugardagsútgáfu danska dagblaðsins Politiken (laugardaginn 13. janúar n.t.t.) var ítarlega fjallað um aðdáendaráðstefnu fjölnotendatölvuleiksins EVE Online, sem fram fór á Íslandi í nóvember sl.

Blaðamaður Politiken sat ráðstefnuna, sem var haldin hérlendis þriðja árið í röð, og ræddi við aðdáendur leiksins og forsvarsmenn hugbúnaðarfyrirtækisins CCP og fékk allt að vita um framandi sólkerfi og hvað væri svo spennandi við leikinn.

Í greininni er almennt fjallað um leikinn auk þess sem bent er á að yfir 170.000 notendur spili nú leikinn á netinu, og að meðalaldur þeirra sé 27 ár. Þess má geta að fyrir um ári síðan var fjöldinn um 100.000.

Blaðamaðurinn tekur einn Eve-aðdáenda tali sem útskýrir m.a. hvernig hann geti orðið háður leiknum. Auk þess spjallar hann við Magnús Bergsson, markaðsstjóra CCP, sem skýrir frá því hvernig átta mánaða vinna hafi farið í súginn þegar hann beið lægri hlut í einum geimbardaga.

Fjallað var um ráðstefnuna í Morgunblaðinu í nóvember. Fram kom að um 650 EVE-spilarar frá öllum heimshornum hafi mætt á ráðstefnuna og að þeir hafi hlýtt á starfsmenn og stjórnendur CCP, hins íslenska hugbúnaðarfyrirtækis og útgefanda tölvuleiksins, ræða um það sem væri á döfinni, en einkum til að hitta vini og óvini sem þeir sæju annars aðeins á tölvuskjánum og tala við yfir netið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert