Opnað fyrir YouTube í Tyrklandi

Tyrkir geta farið inn á YouTube eftir að banni var …
Tyrkir geta farið inn á YouTube eftir að banni var aflétt. mbl.is

Tyrkneska símfyrirtækið Turk Telekom opnaði aftur fyrir aðgang að YouTube í dag eftir að dómstólar drógu tilbaka bannið sem sett hafði verið á vefsíðuna sökum þess að þar var hægt að nálgast myndband sem fór niðrandi orðum um þjóðhetju Tyrkja og landsföðurinn Mustafa Kemal Ataturk sem stofnaði landið 1923.

Samkvæmt tyrkneskum lögum er bannað að níða Ataturk en það mun grískur notandi YouTube hafa gert í einu myndbandi á vefsíðunni. Tyrkneski dómstóllinn stóð við það loforð sitt að leyfa aftur aðgang að vefsíðunni ef hið móðgandi myndband yrði fjarlægt.

Bannið var harðlega gagnrýnt sem ritskoðun í fjölmiðlum. Í tyrkneskum fjölmiðlum kom fram að YouTube, sem Google keypti í nóvember síðastliðinn fyrir 1,65 milljarða bandaríkjadala, hafi fjarlægt myndbandið eftir að hafa fengið mörg þúsund tölvupósta frá móðguðum Tyrkjum.

Myndbandið var liður í stríði í netheimum milli Tyrkja og Grikkja sem hefur staðið frá áramótum þar sem báðar fylkingarnar hafa birt myndbönd eða ummæli sem gera grín og hæðast að andstæðingnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert