Arftaki Hubble-sjónaukans afhjúpaður

Líkan af nýja sjónaukanum er nú til sýnis fyrir utan …
Líkan af nýja sjónaukanum er nú til sýnis fyrir utan Smithsonian loftferða- og geimferðasafnið í Washington. Reuters

Bandaríska geimferðarstofnunin (NASA) hefur afhjúpað líkan af geimsjónauka sem vísindamenn segja að muni geta séð til endimarka alheimsins. Sjónaukanum, sem ber heitið James Webb Space Telescope (JWST), er ætlað að taka við af Hubble-sjónaukanum sem er nokkuð kominn til ára sinna.

Sjónaukinn mun vera stærri en forveri sinn, staðsettur lengra frá jörðu og á honum verður risavaxinn spegill sem gerir honum kleift að sjá meira.

Embættismenn segja að sjónaukanum, sem heitir eftir fyrrverandi stjórnanda hjá NASA, verði skotið út í geim í júní 2013, að því er fram kemur á fréttavef BBC.

Líkanið, sem er í fullri stærð, er nú til sýnis fyrir utan Smithsonian loftferða- og geimferðasafnið í safnið í Washington.

Sjónaukinn, sem kostar 4,5 milljarða Bandaríkjadala, verður staðsettur í um 1,5 milljón km frá jörðu.

Hann er 24 metrar á lengd og 12 metrar á hæð og á honum er sexhyrndur spegill sem er 6,5 metrar í þvermál, sem er um þrisvar sinnum stærri en spegill Hubble-sjónaukans.

Hubble, sem var skotið út í geim árið 1990, hefur sent myndir til jarðar af sólkerfi okkar, fjarlægjum stjörnum og plánetum auk fjarlægra stjörnuþoka sem mynduðust skömmu eftir Stóra hvell.

Vísindamenn segja að nýi sjónaukinn muni gera þeim kleift að sjá lengra út í geim og jafnvel aftur til upphafs alheimsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert