Ferskvatnshöfrungur líklega útdauður eftir 20 milljónir ára á jörðinni

Hröð iðnvæðing í Kína hefur að öllum líkindum valdið því að tegund ferskvatnshöfrungs sem verið hefur til í yfir tuttugu milljónir ára er útdauða, að því er sjávarlíffræðingar greindu frá í dag. Hópi vísindamanna hefur ekki tekist að finna hvíta höfrunginn svonefnda, eða baiji, þrátt fyrir að hafa leitað hans í hálfan annan mánuð í Yantze-fljóti, sem verið hefur heimkynni tegundarinnar.

„Þetta þýðir að öllum líkindum að baiji er útdauður,“ sagði Wang Ding, sem fór fyrir hópi vísindamanna frá Kína, Japan og Bandaríkjunum. Wang er einn helsti sérfræðingur heims í rannsóknum á baiji.

Hvíti höfrungurinn er fyrsta spendýrið sem deyr út á jörðinni svo vitað sé í hálfa öld. Hann er skyldur andarnefjunni, sem er talin í útrýmingarhættu. Wang starfar á vegum kínversku vísindaakademíunnar. Hann segir að reyndar sé ekki öll nótt úti. Ekki sé hægt að fullyrða afdráttarlaust að hvíti höfrungurinn sé útdauður, en síðast sást hann fyrir tveim árum. Síðasta talning á tegundinni var gerð 1997, og voru þá einungis 13 dýr talin.

mbl.is

Bloggað um fréttina