Ævaforn skógur fannst í Ungverjalandi

Ævaforn kýprusviðarskógur hefur fundist í Ungverjalandi, en talið er að skógurinn sé um átta milljón ára gamall. Fornleifafræðingar fundu 16 vel varðveitta trjástofna í opinni kolanámu í borginni Bukkabrany, sem er í norðvesturhluta landsins.

Trén hafa varðveist í heilu lagi á meðan stærstur hluti skógarins breyttist í kol, en talið er að sandstormur hafi orðið á svæðinu og að sandurinn hafi náð að vernda þau tré sem fornleifafræðingarnir hafa nú fundið.

Vonast er til þess að skógurinn muni varpa ljósi á það hvernig loftslagið var á jörðinni fyrir átta milljónum ára.

Um er að ræða stóra trjástofna sem eru þekktir sem mýrarkýprusviður, sem óx í 200 til 300 ár.

Stofnarnir eru 2-3 metrar í þvermál og 6 metrar á hæð. Þeir standa neðst í kolanámunni.

Nú óttast menn hinsvegar að trén verði að engu þar sem búið er að fjarlægja efnið sem hefur varið þau öll þessi ár. Af þeim sökum hefur verið gripið til skjótra aðgerða til að varðveita þau eftir að tilraun til þess að flytja eitt af trjánum á brott mistókst.

mbl.is

Bloggað um fréttina