„Samkynhneigðarsprengja" hlýtur Ig Nóbelsverðlaun

AP

Tímamótarannsóknir á „samkynhneigðarsprengju," sem gerir að verkum að óvinahermenn fyllast óviðráðanlegri kynlöngun til hvers annars, eru meðal þeirra „vísindaafreka" sem hljóta hin svonefndu Ig Nóbelsverðlaun í ár. Einnig var verðlaunuð tilraun til að lækna þotuþreytu í hömstrum með stinningarlyfi.

Frá þessu greinir fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC, en Ig Nóbelsverðlaunin eru háðungarverðlaun sem veitt eru ár hvert í aðdraganda veitingar hinna eiginlegu Nóbelsverðlauna. Verðlaunaafhendingin fór fram í Harvardháskóla í gærkvöldi, en til verðlaunanna var stofnað 1991, af vísindatímaritinu Annals of Improbable Research í því skyni að vekja athygli á afrekum sem „fá fólk fyrst til að hlæja, en vekja það síðan til umhugsunar."

Ennfremur voru verðlaun veitt fyrir vinnslu á vanillu úr kúadellu og rannsóknir á aukaverkunum sverðagleypinga. Þau síðastnefndu hlaut Dan Meyer, framkvæmdastjóri Alþjóðlegu sverðagleypasamtakanna, en grein hans „Sword Swallowing and its Side-Effects," birtist í British Medical Journal.

Höfundar rannsóknarinnar á efnum sem vekja eiga samkynhneigð meðal óvinahermanna eru í bandaríska flughernum, en enginn þeirra mætti til verðlaunaveitingarinnar því að ekki tókst að hafa uppi á þeim.

Tilraunin sem gerð var með að gefa hömstrum stinningarlyfið Viagra til að lækna þá af þotuþreytu gaf góða raun.

mbl.is

Bloggað um fréttina