Yfir eitt þúsund manns nýttu sér Vefþuluna á fyrsta degi

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra opnaði á föstudag nýja íslenska vefþjónustu sem fengið hefur nafnið Vefþula. Vefþulan er ætluð lesblindum námsmönnum og gerir þeim kleift að fá lesinn hvaða texta sem er á netinu, auk þess sem þeir geta sjálfir skrifað texta og fengið hann lesinn fyrir sig.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hexia.net, sem á og rekur Vefþuluna.

Landsbankinn hefur gerst bakhjarl verkefnisins og er Vefþulan því öllum opin endurgjaldslaust. Engan sérstakan búnað þarf á tölvu notenda því Vefþulan virkar alfarið yfir netsamband.

Yfir eitt þúsund manns voru búnir að notfæra sér Vefþuluna fyrsta heila daginn sem hún stóð til boða, þrátt fyrir að um laugardag væri að ræða. Aðstandendum Vefþulunar bárust einnig fjöldi fyrirspurna frá áhugasömum, auk þess sem heillaóskir og þakkir bárust víða að.

mbl.is

Bloggað um fréttina