2009 verður ár stjörnufræðinnar

Stjörnuathuganir verða í brennidepli 2009.
Stjörnuathuganir verða í brennidepli 2009. mbl.is/Ómar Óskarsson

Árið 2009 verður alþjóðlegt ár stjörnufræðinnar samkvæmt tillögu sem Ítalía heimaland Galíleós Galíleís sem samþykkt var á alsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í gær.

Í tilkynningu frá Einari H. Guðmundssyni, formanni íslensku landsnefndarinnar, sem undirbýr IYA2009 (e.International Year of Astronomy 2009), segir að með alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar verði haldið upp á einn mikilvægasta atburð í sögu raunvísinda, þegar Galíleó beitti sjónauka fyrstur manna til rannsókna í stjörnufræði.

Stjörnukíkirinn verður 400 ára

Það var upphafið að 400 ára sögu stórkostlegra uppgötvana í stjörnufræði og atburðurinn kom af stað vísindabyltingu sem hafði djúpstæð áhrif á hugmyndir manna um alheiminn.

Í dag er sjónaukum í geimnum og á jörðu niðri beitt allan sólarhringinn til rannsókna á alheimi á öllum sviðum geislunar. Forseti Alþjóðasambands stjarnvísindamanna, Catherine Cesarsky, fullyrðir að „Alþjóðlegt ár stjörnufræðinnar 2009 veiti öllum þjóðum heims tækifæri til að taka þátt í þeirri öru þróun vísinda og tækni sem nú á sér stað."

Alþjóðaárið IYA2009 er friðsamleg samvinna þjóða þar sem leitað er svara við spurningunni um rætur okkar og upphaf í alheimi, sameiginlega arfleið allra jarðarbúa.

Einar H. Guðmundsson prófessor í stjarneðlisfræði við Háskóla Íslands er formaður íslensku IYA2009 landsnefnarinnar og tengill hennar við alþjóðasambandið.

Stjörnuvísindi á Íslandi

Hann segir af þessu tilefni: „Hér á landi verður haldið upp á Alþjóðlegt ár stjörnufræðinnar 2009 með margvíslegum hætti. Meðal annars er fyrirhugað að bjóða almenningi að hlýða á fyrirlestra um það sem efst er á baugi í stjarnvísindum nútímans.

Mönnum mun einnig gefast kostur á fræðslu um stjörnusjónauka og þátttöku í stjörnuteitum þar sem stjörnuhiminninn verður skoðaður. Þá er verið að vinna úr hugmyndum um samvinnu stjarnvísindamanna og stjörnuáhugamanna við kennara og nemendur í skólum landsins.

Einnig er ætlunin að fræða landsmenn um sögu stjarnvísinda á Íslandi. Það er mikið ánægjuefni að Ísland skuli hafa stutt þessa tillögu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og þannig tekið undir það viðhorf að raunvísindi séu einn af hornsteinum nútíma samfélags."

Stjörnuáhugamenn við störf.
Stjörnuáhugamenn við störf. mbl.is/ Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert