Drukkið til að muna

Vísindamennirnir segja að ef fólk vill gleyma slæmum minningum eigi …
Vísindamennirnir segja að ef fólk vill gleyma slæmum minningum eigi það ekki að drekka heldur að reyna skipta út vondu minningunni fyrir jákvæðar. Reuters

Flestir hafa eflaust heyrt um það að menn drekki sorgum sínum og drekki til að gleyma. Samkvæmt nýrri japanskri rannsókn á þetta ekki við rök að styðjast því svo virðist sem að áfengið eyði ekki slæmum minningunum heldur haldi þeim á lífi.

Vísindamenn við háskólann í Tókýó komust að því að etanól, sem veldur því að fólk kemst í áfengisvímu, fær fólk ekki til að gleyma, heldur þvert á móti festir minningarnar í sessi.

Vísindamennirnir, sem lyfjafræðiprófessorinn Norio Matsuki fór fyrir, gáfu tilraunarottum vægt raflost til að gera þær hræddar. Rotturnar urðu því stjarfar þegar eitthvað ógnaði þeim og þær hnipruðu sig saman þegar þær voru settar í búrin sín.

Í framhaldinu gáfu vísindamennirnir rottunum strax etanól eða saltlausn með sprautu. Þeir komust að því að rotturnar, sem fengu etanólið, urðu mun lengur stjarfar af hræðslu, en rottur sem fengu saltlausnina. Fram kemur að óttinn hafi varað að meðaltali í tvær vikur.

„Ef við yfirfærum þessa rannsókn á mannfólk þá þýðir þetta að þær minningar sem það vill gleyma lifa lengur, jafnvel þótt það reynir að drekka áfengi til að gleyma einhverjum slæmum atburði og er í góðu skapi á meðan það drekkur,“ segir í rannsókninni.

„Daginn eftir man fólkið ekki eftir gleðinni sem það fann fyrir,“ segir jafnframt.

Matsuki segir að þeir sem eigi erfitt með að gleyma slæmum minningum megi draga lærdóm af rannsókninni. „Ef þú vilt gleyma einhverju sem þér mislíkar þá er best að reyna skipta út vondu minningunni fyrir góða snemma, og sleppa því að drekka áfengi,“ ráðlagði Matsuki.

Rannsóknin var birt í bandaríska vísindaritinu Neuropsychopharmacology.

mbl.is

Bloggað um fréttina