Karlar fórnarlömb heimilisofbeldis

Samkvæmt nýrri könnun sem gerð var í Bandaríkjunum eru það ekki einungis konur sem eru fórnarlömb heimilisofbeldis, heldur verða karlar einnig fyrir því. Tæplega 30% þeirra karla sem þátt tóku í könnuninni höfðu sætt ofbeldi af hálfu maka sinna.

Frá þessu greinir vefurinn LiveScience.com. Í könnuninni var heimilisofbeldi skilgreint sem löðrungar, barsmíðar, spark, þvingun til kynlífs og ennfremur misþyrmingar sem ekki eru líkamlegar, eins og til dæmis hótanir, sífelldar niðrandi athugasemdir og stjórnsemi.

„Heimilisofbeldi gagnvart körlum hefur ekki verið rannsakað nóg og oft er það dulið - alveg eins og það var gagnvart konum fyrir tíu árum,“ segir höfundur rannsóknarinnar, sem gerð var í Seattle. „Markmið okkar er að karlar sem sæta misþyrmingum viti að þeir eru ekki einir á báti.“

Fyrri rannsóknir hafa bent til þess sama og nýja könnunin, og ennfremur sýnt fram á að karlar eru tregir til að svara fyrir sig og ófúsir að tilkynna um misþyrmingar. Þó eru yngri menn mun líklegri en þeir sem eru 55 ára og eldri til að tilkynna um heimilisofbeldi.

Höfundur rannsóknarinnar, Robert J. Reid, segir niðurstöðurnar hrekja fimm viðteknar hugmyndir.

Í fyrsta lagi að fáir karlmenn sæti heimilisofbeldi; í öðru lagi að misþyrmingar á körlum hafi engar afleiðingar; í þriðja lagi að karlar sem sæti misþyrmingum á heimili sínu flytji á brott vegna þess að þeim sé það frjálst (þvert á móti búi karlmenn árum saman með maka sem misþyrmi þeim); í fjórða lagi að heimilisofbeldi viðgangis eingöngu hjá fátæku fólki og í fimmta lagi að ef ekkert sé gert í málinu hverfi vandinn af sjálfu sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert