Fær hvatningarverðlaunin fyrir þróun gervigreindar

Ari Kristinn Jónsson ásamt Geir H. Haarde forsætisráðherra.
Ari Kristinn Jónsson ásamt Geir H. Haarde forsætisráðherra. mbl.is/Valdís Thor

„Það er augljós fengur fyrir okkur að fá menn eins og Ara aftur heim til starfa og hann uppfyllir viðmið valnefndarinnar og er verðugur handhafi hvatningarverðlauna vísinda- og tækniráðs 2008,“ sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra, eftir að hafa veitt Ara Kristni Jónssyni verðlaunin í gær.

Verðlaunin eru ein þau helstu sem veitt eru fyrir vísindaafrek á Íslandi og nemur verðlaunaféð tveimur milljónum króna. Fimm eiga sæti í dómnefnd og barst þeim 21 tilnefning að þessu sinni.

Verðlaunin eru veitt efnilegum vísindamönnum og hlaut Ari Kristinn, sem er tölvunarfræðingur og deildarforseti tölvunarfræðideildar Háskóla Reykjavíkur, verðlaunin fyrir rannsóknir á gervigreind.

Ari Kristinn á að baki viðburðaríkan vísindaferil.

Hann lauk doktorsnámi frá Stanford-háskóla í Bandaríkjunum, einum öflugasta háskóla heims, og fjallaði í doktorsritgerð sinni um notkun gervigreindar við sjálfvirka áætlanagerð og ákvarðanatöku.

Fór fyrir þróunarteymi NASA

Ari hóf því næst störf hjá Geimferðastofnun Bandaríkjanna (NASA), þar sem hann kom að þróun á „Remote Agent“-hugbúnaðinum sem stjórnaði Deep Space One-geimfarinu í maí 1999 í „vel heppnaðri tilraun til að láta gervigreind stjórna geimfari“, eins og rakið er í umsögn dómnefndar.

Ari Kristinn fór síðan fyrir fjölmennum hópi vísindamanna hjá NASA við þróun á hugbúnaðinum MAPGEN sem var, ásamt öðrum hugbúnaði, notaður á jörðu niðri við að stjórna könnunarjeppunum Spirit og Opportunity, sem lentu á reikistjörnunni Mars 2004.

Segir í umsögninni að leiðangurinn hafi kostað um einn milljarð dollara, eða rúma 72 milljarða króna, og að það hafi verið mat þeirra sem stjórnuðu honum að MAPGEN-hugbúnaðurinn hafi aukið afköst jeppanna um 15-40%.

Ari Kristinn hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín, þ.á.m. verðlaunin „Outstanding Research Paper Award“ á alþjóðlegri gervigreindarráðstefnu árið 2000 og hjá NASA fékk hann bæði „Space Act Award“ og „NASA Administrator's Award“ fyrir MAPGEN-hugbúnaðinn.

Ari Kristinn hóf í fyrra störf hjá Háskólanum í Reykjavík og hefur síðan m.a. átt þátt í að koma á samstarfi við Kaupmannahafnarháskóla um sjálfvirka stýringu mælitækja á Grænlandi og samstarfi við Reiknistofu í Veðurfræði og fleiri um notkun á hermun og gervigreind til að meta og stýra áhrifum loftslags á framleiðslu, dreifingu og notkun orku, svo eitthvað sé nefnt.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »