Þráðlausu netsambandi komið á í Túrkmenistan

Netglaðir Túrkmenistar geta nú andað léttar því rússneskt fyrirtæki er byrjað að bjóða upp á þráðlaust netsamband í Túrkmenistan en allt þar til á síðasta ári var almenningi bannaður aðgangur að netinu.

Forseti Túrkmenistan, Gurbanguli Berdymukhamedov, veitti á síðasta ári heimild til þess að netkaffihús yrði opnað í landinu. Áður höfðu einungis opinberir starfsmenn, ríkiserindrekar og yfirmenn í alþjóðlegum fyrirtækjum aðgang að netinu.

Rússneska fjarskiptafyrirtækið Mobile TeleSystems greindi frá því í dag að það myndi bjóða íbúum Túrkmenistan upp á þráðlaust net en það yrði ekki ókeypis því það mun kosta 3,50 Bandaríkjadali, 269 krónur, megabætið. Mánaðarlaun í Túrkmenistan eru 200 Bandaríkjadalir, 15.360 krónur, að meðaltali.

mbl.is

Bloggað um fréttina