Ekki hætta á ragnarökum

Vísindamaður í göngunum sem eindahraðallinn er í.
Vísindamaður í göngunum sem eindahraðallinn er í. AP

Vísindamenn við Atómrannsóknastöð Evrópu (CERN) vísa á bug öllum hugmyndum um að eindahraðallinn, sem er í smíðum um eitt hundrað metrum undir yfirborði jarðar á landamærum Sviss og Frakklands, geti skapað stórhættu þegar hann verður settur af stað í ágúst.

Þeir segja enga hættu á að hann muni mynda svarthol sem gleypi jörðina eða leysa úr læðingi efniseindir sem eyði henni.

„Það verður auðvitað ekki heimsendir þegar kveikt verður á hraðlinum,“ segir Lyn Evans, stjórnandi verkefnisins, sem staðið hefur yfir í mörg ár og kostað sem svarar hundruðum milljarða.

Aftur á móti vænta vísindamennirnir þess, að þegar hraðallinn verði kominn í fulla notkun, sem verður þó væntanlega ekki fyrr en nokkrum mánuðum eftir að hann er settur af stað, fari ýmislegt forvitnilegt að koma í ljós, eins og til dæmis ósýnilegt efni eða fleiri víddir en mannleg skynfæri fá numið.

Eindahraðallinn hefur verið kallaður stærsta vísindatilraun sögunnar, en ummál hans er um 27 kílómetrar.

Vísindamenn telja að hið svonefnda ósýnilega efni, eða dökka efni, myndi alls rúmlega 96% alheimsins, og vonast þeir til að hraðallinn geti leitt í ljós vísbendingar um þetta efni.

Í mörg ár hefur verið deilt um hvort einhver hætta sé samfara gangsetningu hraðalsins, sem er mun skapa sjöfalt meiri orku en sá öflugasti hingað til, sem er skammt frá Chicago.

Eðlisfræðingurinn Martin Rees hefur áætlað að hættan á að hraðall valdi heimsendi sé um það bil einn á móti 50 milljónum.

Aftur á móti gaf hópur vísindamanna við CERN út skýrslu nú í mánuðinum þar sem segir að það sé „með öllu óhugsandi“ að hraðallinn leiði til ragnaraka.

Í mars höfðuðu andstæðingar hraðalsins mál fyrir dómstól á Hawaii þar sem þeir kröfðust þess að komið yrði í veg fyrir gangsetningu hans, þar sem það væri „umtalsverð hætta á að ... beiting hraðalsins hafi ófyrirséðar afleiðingar sem gætu að lokum leitt til eyðingar jarðarinnar.“

Einn málshöfðenda, eðlisfræðingurinn og lögmaðurinn Walter L. Wagner, sagði nú í vikunni að á skýrslu CERN um öryggi hraðalsins væru „ýmsir alvarlegir annmarkar“ og hefði hún ekki breytt skoðun sinni á hættunum sem samfara væru beitingu hraðalsins.

Fleiri hafa gagnrýnt CERN á svipuðum forsendum og Wagner, og sagt að eindaárekstrarnir sem verði í eindahraðli geti haft alvarlegri áhrif á jörðina en geimgeislar.

Vísindamenn við CERN svara þessu aftur á móti til, að geimgeislar hafi dunið á jörðinni allar götur síðan sólkerfið myndaðist fyrir 4,5 milljörðum ára, og valdið árekstrum svipuðum þeim sem eigi að verða í hraðlinum.

Hingað til hafi þó ekki orðið heimsslit. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

NOTAÐ&NÝTT
NOTAÐ&NÝTT er ný verslun á Skemmuvegi 6 á bak við Byko. Mikið úrval af fallegum ...
Rúmteppastandur
Rúmteppastandur Mjög flottur rúmteppastandur á svaka góðu verði, aðeins kr. 3.50...
INTENSIVE ICELANDIC, ENGLISH & NORWEGIAN f. foreigners - ÍSLENSKA f.útl - ENSKA - NORSKA
START/BYRJA: 2018: 5/2, 5/3, 2/4, 30/4, 28/5, 25/6 - (HOLIDAY/FRÍ: 18/7-21/8) 3...
 
Félagsstarf
Staður og stund
Aflagrandi 40 Opin vinnustofa kl. 9, jóg...
Háseti
Sjávarútvegur
Háseti Vísir hf óskar eftir að...
Framboðslisti
Fundir - mannfagnaðir
Framboðslisti Sjál...
L helgafell 6018011719 iv/v
Félagsstarf
? HELGAFELL 6018011019 VI Mynd af au...