Næstu skref til verndar ísbjörnum íhuguð nánar

Ísbjörninn er tákn norðurslóðanna í Kanada.
Ísbjörninn er tákn norðurslóðanna í Kanada. mbl.is/KGA

Kanadísk stjórnvöld greindu frá því í síðustu viku að íhuga þurfi nánar hvaða skref sé best að taka næst til verndar ísbjörnum. Yfirvöld hafa sætt gagnrýni náttúruverndarsinna fyrir að gera ekki nóg til að vernda birnina. Tveir af hverjum þrem ísbjörnum í heiminum eru í Kanada.

Vísindanefnd skilaði á fimmtudaginn ítarlegum niðurstöðum athugunar sem fram fór í apríl og segir, að afkoma ísbjarna sé „sérstakt áhyggjuefni,“ en þeir séu ekki í útrýmingarhættu.

Kanadastjórn hefur skipað nefnd sem ráðgast á við ýmsa hópa, þ. á m. frumbyggja á norðurslóðum, um hvernig verði best staðið að verndun bjarnanna, að því er umhverfisráðherrann, John Baird, greindi frá.

„Við erum staðráðin í að vernda ísbirnina, en við ætlum að byggja það á vísindalegum grunni með þátttöku inúíta og íbúa á norðurslóðum,“ sagði Baird við fréttamenn í Inuvik.

Alls eru nú um 25.000 ísbirnir í heiminum, þar af tveir þriðju á norðurslóðum í Kanada.

Bandarísk yfirvöld lýstu því yfir í maí að þau ætluðu að setja ísbirni á lista yfir dýr í útrýmingarhættu. Baird sagði að kanadísk yfirvöld væru í samstarfi við Bandaríkjamenn um verndun ísbjarna.

Ýmis náttúruverndarsamtök hafa ásakað Kanadamenn fyrir að gefa ekki samskonar yfirlýsingu og Bandaríkjamenn.

En kanadískir frumbyggjar á norðurslóðum segja, að ekki sé jafn illa fyrir ísbjarnastofninum komið og margir vilji vera láta. Segja þeir að alvarlegustu vandkvæðin séu staðbundin, og kvarta undan því að frekari takmarkanir á ísbjarnaveiðum komi illa við efnahag frumbyggja.

Vísindadeild bandaríska innanríkisráðuneytisins (U.S. Geological Survey) sagði í september að tveir þriðju hlutar ísbjarnastofnsins kunni að verða horfnir um miðja öldina ef spár um bráðnun hafíss á Norður-Íshafi gangi eftir.

mbl.is

Bloggað um fréttina