Bifreið sem er sérhönnuð fyrir konur

Reuters

Íranar hafa greint frá þeim fyrirætlunum sínum að smíða bifreið sem er sérhönnuð fyrir konur.

Bifreiðin verður sjálfskipt og útbúin búnaði sem mun auðvelda ökumanninum að leggja og rata á milli staða. Þá mun tjakkurinn verða hannaður með þeim hætti konurnar þurfi ekki að óhreinka sig þurfi þær að skipta um dekk, segir á fréttavef breska ríkisútvarpsins.

Stærsti bílaframleiðandi Írans, Iran Khodro, segir að konur geti valið úr fjölmörgum kvenlegum litum sem og  ráðið útliti innra rýmisins.

Auk þess er bifreiðin sérstaklega hönnuð til að auðvelda konum að fara út í búð til að versla og aka börnunum í skólann. 

Fréttaskýrandi BBC segir ekki ólíklegt að þetta muni ýta enn frekar undir þá staðalmynd að Íran sé ríki karlrembunnar.

Hann segir að þrátt fyrir þá staðreynd að um 60% allra háskólanema í landinu séu konur, þá eigi íranskir karlar bágt með að átta sig almennilega á jafnréttisskilaboðunum.

Í nýlegri könnun fræðimanns, sem starfar við Allameh Tabatabaii háskólann í Teheran, kemur fram að útivinnandi íranskar konur séu á þeiri skoðun að karla og konur eigi að skipta með sér heimilisverkunum. Jafnframt kom í ljós að eiginmenn þeirra séu enn mjög íhaldssamir í skoðunum.

Sem dæmi má nefna að þá þykja íranskir eiginmenn sem elda handa eiginkonum sínum vera afar sérvitrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina