Vilja norrænt bann við transfitusýrum

Transfitusýrur eru ein gerð harðrar fitu í matvælum. Þær eru …
Transfitusýrur eru ein gerð harðrar fitu í matvælum. Þær eru ýmist í matvælum frá náttúrunnar hendi eða myndast við vinnslu og verður stærsti hlutinn til þegar olía er hert að hluta.

Norðurlandaráð vill að Norðurlöndin fylgi fordæmi Dana og banni matvæli sem innihalda meira en 2% af svonefndum transfitusýrum. Segja norrænir þingmenn þetta vera einfalda og auðvelda aðgerð til að koma í veg fyrir hjarta- og æðasjúkdóma á Norðurlöndum.

Tillaga þessa efnis var samþykkt á þingi Norðurlandaráðs í Helsinki í dag. Segir þar, að minnkun notkunar á transfitusýrum ætti að verða innan fimm ára og eru norrænu ríkisstjórnirnar hvattar til að beita þrýstingi innan ESB og í EES löndunum um að þau setji sömu reglur. Að auki er lagt til,  að matvæli sem ekki innihalda transfitusýrur verði merkt sérstaklega. 

„Það er mikilvægt að Norðurlöndin gangi á undan með góðu fordæmi á þessu sviði. Bann við transfitusýrum getur verið öðrum innblástur – meðal annars ESB og EES-svæðinu," segir Henrik Dam Kristensen, fulltrúi í flokkahópi Jafnaðarmanna og neytendanefnd Norðurlandaráðs við vef Norðurlandaráðs.

Danir samþykktu lög um takmörkun á transfitusýrum við tvö prósent, árið 2004. Brot á lögunum getur haft í för með sér allt að tveggja ára fangelsi. Árangurinn er sá að í dag er innihald transfitusýra í matvælum í Danmörku mjög lágt miðað við hin Norðurlöndin. Lögin hafa meðal annars haft í för með sér að New York borg hefur samþykkt svipað bann í þeim 25.000 veitingahúsum sem eru í borginni.

mbl.is

Bloggað um fréttina