Stefnumót um netnotkun og börn

mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Börn fá sífellt oftar kynferðisleg skilaboð á netinu sem þau kæra sig ekki um, áreitni, stríðni og ógnun á spjallsíðum eykst og börn lenda sömuleiðis oftar inn á vefsíðum með grófum eða ofbeldisfullum myndum. Þetta er meðal þess sem lesa má út úr könnun SAFT á netnotkun barna og unglinga. SAFT og Síminn standa í fyrramálið fyrir stefnumóti um netnotkun barna og unglinga og ábyrgð foreldra.

Eitt af stærstu viðfangsefnum SAFT verkefnisins, vakningarátaks um örugga tækninotkun barna og unglinga á Íslandi, er að kortleggja notkun barna og unglinga á netinu og öðrum skyldum miðlum. Árið 2003 var framkvæmd yfirgripsmikil könnun á netnotkun íslenskra barna og unglinga á aldrinum 9 - 16 ára . Sambærileg könnun var framkvæmd í byrjun árs 2007 og nýrra gagna verður aflað í byrjun árs 2009.

Á stefnumóti SAFT og Símans munu sérfróðir aðilar fara yfir ólíkar hliðar á því hlutverki sem netið gegnir í lífi barna og unglinga og hlutverk foreldra í að tryggja netöryggi barna sinna. Fulltrúar lögreglu mun ræða um birtingarmyndir eineltis á netinu og hvaða hlutverki lögreglan gegnir. Sömuleiðis verða félagsleg tengslanet, félagsnetsíður og samskipti í gegnum netið skoðuð.

Stenfumótið verður á Háskólatorgi og hefst klukkan 10:30.

mbl.is

Bloggað um fréttina