G-bletturinn finnst ekki

.
.

Umfangsmikil bresk rannsókn hefur leitt í ljós, að G-bletturinn svonefndi, sem sagður er að finna í sumum konum en öðrum ekki, er væntanlega  ekki til.

Vísindamenn við King's College í Lundúnu segja að engar vísbendingar hafi fundist um hinn svonefnda G-blett, taugaendablett í kynfærum kvenna, sem sagður er veita sérstaklega kynferðislega ánægju sé hann örvaður.  Þetta var niðurstaðan eftir rannsóknir á yfir 1800 konum.

„Konur kunna að halda því fram, að hægt sé að leiða G-blettinn í ljós með æfingum eða sérstöku mataræði en í raun er nánast vonlaust að finna nokkrar vísbendingar um hann," segir Tim Spector, sem stýrði könnuninni, við blaðið The Times. 

„Þetta er langstærsta könnunin, sem gerð hefur verið og hún sýnir fram á að G-bletturinn er aðeins til í hugum fólks. 

Í könnuninni svöruðu 1804 breskar konur á aldrinum 23 til 83 spurningum. Um var að ræða tvíburasystur í öllum tilfellum, þar á meðal eineggja tvíburar, sem eru með alveg eins genamengi. 

Ef önnur systirin af eineggja tvíburum sagðist vera með G-blett ætti samkvæmt kenningum að vera líklegra að hin gæfi sama svar. En ekkert slíkt mynstur kom í ljós, sem að mati vísindamannanna bendir til þess, að G-bletturinn sé aðeins ímyndaður. 

Þótt 56% kvennanna sögðust hafa fundið fyrir G-blettinum voru þær flestar í hópi þeirra yngri og þeirra sem lifðu fjörugu kynlífi.  

G-bletturinn er nefndur eftir þýska vísindamanninum Ernst Gräfenberg, sem taldi sig á sjötta áratug síðustu aldar hafa fundið þetta kynörvandi svæði. Beverly Whipple, heiðursprófessor í Rutgers háskóla í New Jersey, fjallaði síðan um G-blettinn í mörgum bókum eftir að hún taldi sig hafa fundið G-blett 400 kvenna í rannsóknum.

Whipple sagði um helgina, að rannsókn bresku vísindamannanna væri ekki mikils virði og þeir hefðu ekki tekið með í reikninginn mismunandi tækni sem beitt er við kynmök. Tvíburar hefðu venjulega ekki sama bólfélaga og því hefðu þeir mismunandi kynlífsreynslu.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert