Húðflúr getur verið hættulegt

Danskur vísindamaður segir, að aðeins 5% af húðflúrstofum þar í landi auglýsi hvaða efni séu í litunum sem notaðir eru en engin lög kveða á um slíka innihaldslýsingu. Vísindamaðurinn segir, að þetta geti haft alvarlegar afleiðingar því litir kunni að innihalda krabbameinsvaldandi efni.

Blaðið Berlingske Tidende hefur eftir Jørgen Serup, prófessor í húðsjúkdómafræði við Bispebjerg sjúkrahúsið, að þeir sem láti tattóvera sig hafi ekki hugmynd um hvaða efnum verið sé að sprauta í líkama þeirra. Aðeins um 5% af húðflúrstofum í Danmörku upplýsi hvað sé í litarefnunum. 

Serup segir að of lítið sé vitað um hvaða litarefni kunni að vera hættuleg og því hafi ekki verið sett lög sem banni tiltekin efni. Algengasti liturinn sé svart litarefni, sem húðflúrarinn kaupi og sprauti beint í húð þess sem verið er að flúra. 

„Ef við vitum ekki hvað húðflúrarar sprauta inn í húðina vitum við ekki heldur hvort þetta kann að leiða til húðkrabbameins eftir 15-20 ár. Rannsóknir í Þýskalandi benda til þess, að mörg litarefni, sem þar eru notuð, séu talin krabbameinsvaldandi samkvæmt skilgreiningum Evrópusambandsins," hefur blaðið eftir Serup.

Hann ætlar nú að taka saman lista yfir þau litarefni, sem talin eru krabbameinsvaldandi. Segir hann, að það gæti leitt til þess að sett verði lög sem skyldi húðflúrara til að upplýsa hvaða efni séu í litum þeirra. 

„Neytendur eiga að vita hverju er verið að sprauta í líkama þeirra," segir  Jørgen Serup við Berlingske.

Frétt Berlingske Tidende

mbl.is