Spá köldum vetrum næstu árin

Óvenju kalt var í Evrópu í vetur. Jafnvel á Spáni …
Óvenju kalt var í Evrópu í vetur. Jafnvel á Spáni snjóuðu bílar inni. Reuters

Sumir vísindamenn telja að ládeyða í virkni sólar kunni að valda kuldaskeiði næstu vetur. Samanburður á veðurfarsskýrslum í Bretlandi og virkni sólar þykir benda til þess að lítilli sólvirkni fylgi kaldir vetur. Talið er að nú geti verið hafið kuldaskeið sem standi í hálfa öld.

Mike Lockwood, prófessor við háskólann í Reading, kannaði tengsl sólarvirkni við veðurfar á jörðu eftir að hafa séð að tveir kaldir vetur í Bretlandi fóru saman við óvenju litla virkni sólar. Vísindamenn við háskólann í Reading, Rutherford Appleton Laboratory í Oxfordskíri og Max Planck stofnunina í Þýskalandi tóku einnig þátt í rannsókninni.

Hópurinn rannsakaði breskar veðurfarsskýrslur allt aftur til ársins 1659, að því er Daily Mail greindi frá. Skýrslurnar voru svo bornar saman við heimildir og útreikninga um sólvirkni á sama tímabili.

Sólvirknin birtist í styrk segulsviðs sólarinnar sem aftur getur haft áhrif á segulsvið jarðarinnar. Áreiðanlegar mælingar um virkni sólar ná einungis frá því í byrjun 20. aldar og til dagsins í dag. Vísindamennirnir beittu tölvulíkani til að rekja sig aftar í tímanum.

Tölfræðilegur samanburður leiddi greinilega í ljós að áratugum mikillar sólarvirkni og mildum vetrum á sama tíma fylgdu tímabil lítillar virkni sólar og harðari vetra á jörðu. 

Somi Solanki, prófessor við Max Planck stofnunina, sagði þetta merkja að kaldir vetur undanfarin ár stangist ekki á við kenningu um hnattræna hlýnun af mannavöldum.

Aftenbladet í Noregi fjallar einnig um rannsóknir Lockwood prófessors og félaga hans. Það vitnar í grein eftir Lockwood í vísindaritinu Environmental Research þar sem Lockwood skrifar m.a. að greinilega hafi dregið úr virkni sólar allt frá árinu 1985. Hann telur mögulegt að sólarvirkni geti orðið með minna móti næstu hálfa öldina. 

Lockwood segir margt benda til þess að næstu vetur í Evrópu geti orðið kaldir. Vísindamenn greinir hins vegar á um hve mikil áhrif sólin hefur á hitastig á jörðinni allri. Því þykir athyglisvert að Lockwood, sem er virtur sérfræðingur í sólvirkni, skuli segja að mögulega verði kalt á vetrum næstu 50 árin.

mbl.is