HÍ kortleggur vetrarbrautina

Vetrarbrautin.
Vetrarbrautin.

Raunvísindastofnun Háskóla Íslands og Stanford-háskóli, einn virtasti háskóli Bandaríkjanna, hafa undirritað samkomulag um þróun líkans af Vetrarbrautinni en mun byggja á úrvinnslu gagna úr Fermi, gervitungli Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna, NASA.

Verkefnisstjóri er dr. Guðlaugur Jóhannesson stjarneðlisfræðingur en fram kemur á vefnum stjörnuskoðun.is að hann hafi unnið að hliðstæðum rannsóknum við Stanford-háskóla undanfarin þrjú ár og verið virkur þátttakandi í Fermi-samstarfinu.

Á umræddu vef segir að um borð í Fermi-gervitunglinu sé stór sjónauki, svonefndur Large Area Telescope (LAT), sem sé næmur fyrir háorku gamma-geislun, en sjónaukinn er sagður helsta mælitæki gervitunglsins.

Skotið á loft 2008

„Fermi-tunglinu var skotið á loft 11. júní 2008 og hefur það frá þeim tíma aukið gríðarlega við þekkingu okkar á háorkugeislun utan úr geimnum. Á fyrstu mánuðum mælinganna fann tunglið til dæmis 16 áður óþekktar tifstjörnur og hefur síðan gert fjölda annarra uppgötvanna. Tímaritið Science taldi niðurstöður Fermi-mælinganna á meðal stærstu uppgötvanna ársins 2009, en mælitæki þess skanna alla himinhvelfinguna á um þremur klukkustundum.
 

Að Fermi rannsóknarverkefninu vinnur alþjóðlegur hópur um 400 vísindamanna frá yfir 10 löndum. Verkefnið er að mestu leyti fjármagnað af NASA og orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna (DOE) en einnig taka virtar stofnanir í Frakklandi, Ítalíu, Japan og Svíþjóð stóran þátt í því. Nú þegar hafa niðurstöður mælinganna verið birtar í yfir 100 ritrýndum greinum í virtum tímaritum meðal annars í Science og Nature. Gangi allt að óskum mun gervitunglið halda áfram mælingum næstu átta árin,“ segir í umfjöllun vefjarins.


Áhugasömum er bent á fyrirlestur Guðlaugs um þessar rannsóknir og Fermi-gervitunglið þriðjudagskvöldið 5. október nk. kl. 20:00 í stofu 132 í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.

 www.stjornuskodun.is

Vísindamaðurinn Guðlaugur Jóhannesson.
Vísindamaðurinn Guðlaugur Jóhannesson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert