Yfir hundrað krakkar keppa í LEGÓ

Legó-keppnin hefur verið haldin hér á landi í nokkur ár. …
Legó-keppnin hefur verið haldin hér á landi í nokkur ár. Hér er mynd frá einni slíkri. mbl.is/Ómar Óskarsson

Yfir hundrað börn á aldrinum 10-16 ára keppa á laugardag í árlegri alþjóðlegri LEGÓ-keppni. Tólf lið eru skráð til keppni og afhjúpa átta vikna rannsóknarvinnu, hönnun og forritun.

Keppnin nefnist FIRST LEGO League  (FLL) og er samstarfsverkefni LEGO og FIRST sem er skammstöfun fyrir  For Inspiration and Recognition of Science and Technology. Markmið með keppninni er að vekja áhuga grunnskólanema á vísindum og tækni ásamt því að byggja upp sjálfstraust þeirra, leiðtogahæfni og lífsleikni.  Hugmyndafræði keppninnar er að nemendur læri að vinna saman og taka þátt í nýsköpun og framleiðslu á einhvers konar tæki sem gagnast samfélaginu. Á hverju ári er keppninni valið ákveðið þema og í ár er það heilbrigðistækni.

Keppnin er á nokkrum sviðum; lausn í þrautabraut, hönnun og forritun vélmenna, rannsóknarverkefni, liðsheild, ferilskráning og besta skemmtiatriðið.  

Aðalviðurkenninguna hlýtur það lið sem er stigahæst í öllum framangreindum þáttum.  Þeirri viðurkenningu fylgir þátttökuréttur á Evrópumóti FLL sem fram fer í júní á næsta ári í Delft í Hollandi.

Verkfræði- og náttúruvísindasvið HÍ ásamt Barnasmiðjunni umboðsaðila LEGO á Íslandi halda keppnina og fer hún fram hjá Keili, miðstöð vísinda og fræða, við Ásbrú á Suðurnesjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert