Þrjátíu þúsund íslenskar Wikipedia-greinar

Alfræðiorðabókin Wikipedia er geysivinsæl
Alfræðiorðabókin Wikipedia er geysivinsæl wikipedia.org

Fjöldi íslenskra greina á Wikipedia nálgast eru 29.996 sem stendur og búist við því að þær fari yfir 30 þúsund greinar síðar í dag. Það verður að teljast áfangi, ekki síst með hliðsjón af því að ekki eru nema 138.450 greinar á dönsku.

Einn þeirra sem skrifar greinar á Wikipedia er Hrafn H. Malmquist, og hefur gert í um fjögur ár. „Ef maður skoðar tölfræðina út frá höfðatölu er nokkuð gott að Íslendingar afkasti þessu,“ segir Hrafn en að meðaltali eru um níu íslenskar greinar sem bætast við á hverjum degi, þ.e. ef miðað er við að rúm tvö ár eru síðan 20 þúsund greina markinu var náð.

Þrátt fyrir mikil afköst er talið að fremur fáir standi að þeim. Tvær leiðar eru til þess að leggja fram efni, nafnlaust og svo með notendanafni. „Náttúrlega sér maður aðeins ip-tölur þegar ekki er um notendanafn að ræða og það er talsvert um slíkt. En ef ég ætti að nefna hversu margir eru í föstum hóp sem standa að þessu tel ég að það séu ekki nema á milli tíu og tuttugu manns.“

Hrafn hvetur fólk til að sýna Wikipedia áhuga og leggja fram efni. Hann telur að fólk mikli fyrir sér að skrifa inn á Wikipedia og bendir á að engar hæfniskröfur séu gerðar og allar upplýsingar sem þar er að finna þurfi að meta á hlutlausan hátt hvort séu réttar og góðar.

Til samanburðar við þrjátíu þúsund íslenskar greinar má nefna að á sænsku eru 377.029 greinar og 254.833 á finnsku.


mbl.is

Bloggað um fréttina