Heimurinn þarf erfðabreytt matvæli

Matvælaverð hefur hækkað í heiminum undanfarið.
Matvælaverð hefur hækkað í heiminum undanfarið. Reuters

Ekki er lengur hægt að líða að reynt sé að koma í veg fyrir ræktun á erfðabreyttum matjurtum í þróunarríkjum af siðferðislegum ástæðum. Mannkynið standi frammi fyrir miklum vandræðum á næstu áratugum vegna mataröryggis. Þetta segir aðalvísindamaður bresku ríkisstjórnarinnar.

Sir John Beddington, sem er sérfræðingur í lýðfræði, segir að á næstu áratugum muni bera á miklum matarskorti í heiminum og uppþota meðal almennings af þeim sökum. Nú þegar hafa átök blossað í Norður-Afríku vegna matarskorts og eru áhyggjur uppi um hækkandi verð á matvælum í heiminum. Breska blaðið The Guardian segir frá þessu.

„Nokkrir mikilvægir þættir eru í þann veginn að breyta heiminum. Mannkyninu fjölgar um sex milljónir manns á hverjum mánuði og mun ná níu milljörðum fyrir árið 2050. Á sama tíma er búist við að árið 2030 muni yfir 60% fólk búa í borgum og taki því ekki lengur þátt í ræktun á matvælum eða að ala upp búdýr til manneldis. Þar að auki er hagsæld í heiminum að aukast og fólk getur greitt meira fyrir mat,“ segir hann.

Vegna þessa ætti heimurinn eftir að þarfnast 40% meiri matvæla, 30% meira vatns og 50% meiri orku fyrir miðja öldina á sama tíma og veðurfarsbreytingar vegna hlýnunar jarðar væru farnar að hafa veruleg áhrif á umhverfi plánetunnar m.a. með flóðum, stækkandi eyðimörkum og hækkandi hitastigi.

„Við gætum höggvið regnskóga og sáð á sléttum til þess að rækta meiri mat en það myndi gera okkur enn berskjaldaðri fyrir áhrifum hlýnunar jarðar og veðurfarsbreytinga. Við þurfum á þessum svæðum að halda til þess að taka á móti útblæstri okkar á koltvísýringi,“ segir Beddington.

Mannkynið þyrfti að horfast í augu við þá staðreynd að nú þyrfti að notast við allar hugsanlegar leiðir til þess að bæta matvælaframleiðslu, þ.á m. með notkun líftækni í landbúnaði.

Ummæli Beddingtons eru líklega til að vekja reiði umhverfisverndarsinna sem telja að það sé rangt af Vesturlöndum að troða tækni sem þau hafi þróað upp á lönd þriðja heimsins. Beddington var hins vegar eindreginn í þeirri afstöðu sinni að erfðatækni væri nytsamleg.

„Um það bil 30% af matvælum fara til spillis áður en hægt er að uppskera þau vegna þess að þau eru étin af ýmsum plágum sem við höfum aldrei lært að hafa hemil á. Við höfum ekki efni á slíkum afföllum áfram. Erfðatæknin ætti að gera okkur kleift að leysa slík vandamál með því að búa til plöntuafbrigði sem þola plágurnar til dæmis. Að sjálfsögðu munu við þurfa að ganga úr skugga um að slíkar plöntur séu prófaðar á ítarlegan hátt þannig að þær virki, þær skaði ekki fólk og þær séu ekki hættulegar umhverfinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert