Eykur líkur á brjóstakrabbameini

mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Ný rannsókn bendir til að hjartalyfið digoxin, en Actavis framleiðir samheitalyf undir nafninu digitek, kunni að auka líkur á að brjóstakrabbameini.

Dönsk rannsókn sem birt var á Journal of Clinical Oncology bendir til þess að konur sem taka digoxin, sem er notað vegna hjartabilunar og óreglulegs hjartsláttar, séu í 40% meiri hættu á að fá brjóstakrabbamein en konur sem ekki taka lyfið.

Rannsóknin náði til kvenna sem tóku lyfið á árunum 1995 til 2008. Niðurstaðan var sú að af 104.648 konum höfðu 2.144 fengið brjóstakrabbamein. Rannsóknin benti til þess að með því að hætta að taka lyfið væri dregið úr líkum á að fá krabbamein.

Þeir sem stóðu að rannsókninni telja að ástæða þess að digoxin eykur líkur á brjóstakrabbameini sé sú að lyfið virki með svipuðum hætti og estrogen, en lengi hefur verið vitað að það hormón eykur líkur á að fá krabbamein.

Vísindamennirnir slá þó þann varnagla að ávinningurinn af því að taka lyfið gegn hjartabilun kunni að vega upp þá áhættu sem fylgir varðandi krabbamein.

Actavis Totowa, sem framleiðir digitek, samheitalyf digoxin, þurfti að kalla lyfið af markaði í apríl 2008 eftir að uppgötvaðist að sumar töflur voru tvisvar sinnum þykkari en þær áttu að vera. Þessi mistök höfðu í för með sér þá áhættu að þúsundir notenda fengju of stóran skammt af lyfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert