iTunes í „App Store“ á Íslandi

Íslendingar eiga nú að komast í iTunes í gegnum App …
Íslendingar eiga nú að komast í iTunes í gegnum App Store. MIKE SEGAR

Apple hefur nú opnað „iOS App Store“og „Mac App Store“ á Íslandi og í 32 öðrum löndum til viðbótar við þau sem áður höfðu aðgang að forritabúðunum. Með þessu mun Íslendingum opnast aðgangur að iTunes tónlistarvefnum í gegnum „app store“.

Með þessu er Apple að auka þjónustu sína m.a. fyrir eigendur iPhone síma og iPad spjaldtölva og væntanlega iCloud þjónustu Apple.

Svohljóðandi fréttatilkynning barst frá Macland, endurseljanda Apple á Íslandi:

„Í kvöld kl. 23:25 fengum við hjá Macland tölvupóst þess efnis að Apple hefði ákveðið að opna fyrir aðgang 33 nýrra landa að App Store verslun sinni.
App Store er nauðsynleg fyrir alla eigendur iPod Touch, iPad og iPhone ásamt því að nýverið hleypti Apple af stokkunum App Store fyrir borð- og fartölvur sínar.

Þetta þýðir einfaldlega það að Íslendingar þurfa ekki lengur að fara krókaleiðir til að nálgast lögleg forrit og breytir algjörlega því landslagi sem söluaðilar Apple hérlendis hafa þurft að vinna við síðustu ár.

Þessu útspili Apple ber að fagna og hlökkum við hjá Macland til að aðstoða viðskiptavini okkar við að komast í samband við Apple App Store, loksins á 100% löglegan máta.

Sérstaklega er vert að minnast á þetta þar sem Apple hóf nú í þessari viku sölu á nýjasta stýrikerfi sínu, OS X Lion en eingöngu er hægt að nálgast það í gegnum App Store. Íslendingar hafa þurft að notast við App Store "staðsettar" í öðrum löndum með hinum ýmsu krókaleiðum og með misjöfnum árangri. Þetta þýðir að þeim óvissutíma er lokið og Apple virðist loksins hafa sett Ísland á kortið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina