Uppgötvuðu ósonlag á Venusi

Venus
Venus

Vísindamenn hafa uppgötvað að ósonlag er á reikistjörnunni Venusi. Það er hinsvegar hundrað sinnum þynnra en ósonlag jarðarinnar. Fram til þessa hefur ósonlag aðeins fundist á jörðinni og á Mars.

Talið er að uppgötvunin muni geta hjálpað stjörnufræðingum að betrumbæta leitina að lífi á öðrum plánetum.

Það var flaugin Venus Express frá Geimferðastofnun Evrópu (ESA) sem uppgötvaði ósonlagið á Venusi. Það gerðist þegar myndavélar flaugarinnar voru að fylgjast með ákveðnum stjörnum gegnum gufuhvolf Venusar. Stjörnurnar virtust daufari en búist var við og reyndist það vera vegna þess að ósonlagið gleypti í sig hluta af útfjólubláu geisluninni.

Ósonlagið á Venusi er í 100 km hæð, sem er um þrisvar sinnum hærra en ósonlagið yfir jörðinni.

Óson er sameind sem inniheldur þrjú súrefnisatóm. Það myndaðist þegar sólarljós braut niður koltvíoxíð í gufuhvolfi Venusar og súrefnisatómin úr koltvíoxíðinu bundust í súrefnissameindir. Óson á jörðinni, sem dregur í sig megnið af hættulegum útfjólubláum geislum sólarinnar og kemur þannig í veg fyrir að þeir nái til jarðar, myndast á svipaðan hátt.

Að sögn Hakan Svedham, sem starfar hjá geimferðastofnuninni, mun þessi uppgötvun auka skilning vísindamanna á samsetningu og dreifingu gufuhvolfsins á Venusi.

Sumir stjarnlíffræðingar telja að sé súrefni, kolefni og óson til staðar í gufuhvolfi sé það vísbending um að líf kunni að finnast á yfirborði plánetunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina