Amazon frumskógurinn í götumyndum Google

Séð yfir Amazon, skammt frá Manaus borg í Brasilíu.
Séð yfir Amazon, skammt frá Manaus borg í Brasilíu. AP

Google Maps opnaði í dag aðgang að myndum sem teknar voru í Amazon frumskóginum á síðasta ári. Þannig gefst notendum „Street view" götumyndaþjónustu Google kostur á því að skoða sig um á bökkum  Rio Grande árinnar, í skógarslóðum og jafnvel í nokkrum þorpum frumskógarins.

„Sigldu niður Rio Negro og láttu strauminn bera þig að þverám þar sem skógarbotninn er á floti. Njóttu gönguferðar um skógarstíga þar sem brasilíuhnetur eru týndar, þú gætir jafnvel komið auga á skógardýr ef þú hefur augun hjá þér," sagði í bloggfærslu frá forstöðukonu Google Street View Amazon verkefnisins, Karin Tuxen-Bettman í dag.

Myndirnar sem safnað var eru m.a. frá Tumbira, stærstu byggðinni á bökkum Rio Negro friðlandsins og fleiri þorpa meðfram ánni. „Við vonum að þetta Street View safn gefi aðgang að þessu einstaka svæði jarðkringlunar sem mörg okkar myndu annar aldrei fá tækifæri til að upplifa," sagði Tuxen-Bettman.

„Við erum hæstánægð með að geta lagt okkar að mörkum til að hjálpa bæði vísindamönnum og sófakartöflum um allan heim að læra meira um Amazon og öðlast dýpri skilning á því hvernig samfélögin í skóginum standa vörð um þetta einstaka umhverfi fyrir komandi kynslóðir."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert