Flugvél frá NASA á Keflavíkurflugvelli

Rannsóknarflugvél frá NASA Earth Resources (ER-2) er væntanleg til Íslands á morgun. Flugvélin er sérhönnuð til að fljúga í hárri lofthæð og útbúin fullkomnum mælitækjum. Vélin mun dvelja á Íslandi í mánuð og sinna rannsóknum í mikilli lofthæð yfir Grænlandi.

Í fréttatilkynningu frá bandaríska sendiráðinu segir að markmiðið með veru vélarinnar hér á landi sé að mæla nákvæmni nýlega þróaðs mælitækis sem nefnist MABEL (Multiple Altimeter Beam Experiment Lidar).

Mælingarnar eru hluti af þróunarferli sambærilegs mælitækis er verður hluti af IceSat-2, gervihnetti frá NASA sem verður loftsettur árið 2016 og er ætlað að fylgjast með umhverfis- og loftslagsbreytingum. Verkefnið mun styðja við rannsóknir á loftlagsbreytingum með þróun betri aðferða við að mæla bráðnun heimskautaíss.

 Flugvélin er gerð út frá Rannsóknarflugsetri NASA í Edwards, Kaliforníu. Flugmaður vélarinnar er Timothy L. Williams, reyndur flugmaður sem starfaði lengi hjá Flugher Bandaríkjanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert