Nagladekk ógna heilsunni

Gulur himinn - Í kyrru veðri er stundum mengunarslikja yfir …
Gulur himinn - Í kyrru veðri er stundum mengunarslikja yfir Reykjavík. Mbl.is/Ómar Óskarsson

Ný sænsk rannsókn hefur leitt í ljós að rekja má dauða á milli 30 til 40 manns í Stokkhólmi á ári til notkunar nagladekkja. Eitraðar agnir, sem tætast upp undan nagladekkjum á malbiki, eru ekki aðeins hættulegar öndunarfærunum, samkvæmt rannsókninni, heldur geta þær líka valdið blóðtappa og hjartaáfalli.

Dagens Nyheter segir frá niðurstöðum rannsóknarinnar í dag. Þar segir að vísindamenn hafi lengi deilt um hvort eituragnir í malbiki séu beinlínis skaðlegar eða ekki. Með rannsókninni, sem framkvæmd var við Umeå-háskóla í Svíþjóð, er sú deila útrædd að sögn DN.se.  
Þetta er fyrsta rannsóknin í heiminum þar sem sýnt er fram á tengsl milli svifryks og dánartíðni, en dauðsföll í Stokkhólmi voru rannsökuð með hliðsjón af mengun í borginni.

„Agnirnar geta haft áhrif á hjartslátt og blóðtappamyndun. Þess vegna er fólk með hjarta- og kransæðavanda í sérstökum áhættuhópi vegna rykmengunar,“ hefur Dn.se eftir Bertil Forsberg, prófessor í umhverfislæknisfræði við Umeå-háskóla.

Andrúmsloftið í Stokkhólmi er mengaðast á vorin, samkvæmt rannsókninni, þegar vegirnir þorna og svifrykið þyrlast upp og fer í öndunarfærin. Nagladekk hafa verið bönnuð á ákveðnum svæðum í Stokkhólmi, Uppsölum og Gautaborg. Sænsku vísindamennirnir hvetja til þess að það sama verði gert víðar til þess að draga úr svifryksmengun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert