Hálf milljón „makka“ sýkt af vírus

Tölva af gerðinni Macbook Pro.
Tölva af gerðinni Macbook Pro.

Rúmlega hálf milljón Mac tölva frá Apple, eða um 600 þúsund tölvur, eru sýktar af hinum svokallaða Flashback trójuvírus, að sögn rússneska vírusvarnarfyrirtækisins Dr Web.

Þessi háa tíðni vekur athygli enda eru Apple tölvur þekktar fyrir að hafa mun lægri tíðni vírussmita en svokallaðar PC tölvur. Í rannsókn á vegum Dr Web er því haldið fram að þessi vírussmit sýni að fullyrðingar sumra sérfræðinga þess efnis að Mac OS X stýrikerfið sé ónæmt fyrir vírusum standist ekki.

Um er að ræða trójuvírus en slíkir vírusar geta gert þriðja aðila kleift að taka yfir stjórn á viðkomandi tölvu. Vírusinn dulbýr sig sem uppsetningarforrit fyrir Adobe Flash Player. Ef notandi viðkomandi tölvu hefur stillt Safari netvafrann frá Apple þannig að hann opni sjálfkrafa allar þær skrár sem taldar eru „öruggar“ þá gæti hann óafvitandi lent í því að tölvan hans sýkist og að vírusinn slökkvi á þeim vírusvörnum sem til staðar eru á tölvunni.

Apple hefur núþegar gefið út uppfærslu sem hreinsar vírusinn burt af sýktum tölvum. Fyrirtækið varar Mac notendur við því að opna hvorki óþekktar skrár né viðhengi og hvetur þá til þess að slökkva á ofangreindri stillingu í Safari vafranum.

Nánar má lesa um málið á vef Daily Telegraph.

mbl.is

Bloggað um fréttina