Íranar þróa nýtt net

Írönsk stjórnvöld neita fullyrðingum þess efnis að þau hyggist loka á netaðgang landsmanna í ágúst og bjóða þeim í staðinn upp á net þar sem einungis er hægt að fara á þarlendar vefsíður.

Þetta var staðhæft eftir birtingu viðtals við fjarskiptamálaráðherra landsins, Reza Taghipour, en ráðuneyti hans segir viðtalið aldrei hafa átt sér stað.

Í viðtalinu var haft eftir Taghipour að frá og með ágúst myndu Íranar taka í notkun „hreint internet“ þar sem ekkert aðgengi væri að vinsælum síðum á borð við Google og Hotmail og í stað þeirra ættu að koma leitarvélar og póstþjónustuforrit sem rekin væru af íranska ríkinu.

Fjarskiptaráðuneytið segir þetta vera áróður vestrænna ríkja. Engu að síður standi til að byggja upp slíkt innra net landsins og á það að vera tilbúið til notkunar í mars á næsta ári. 

Írönsk yfirvöld hafa lokað á aðgengi landsmanna að milljónum vefsíðna, sem sagðar eru vera and-íslamskar og að auki hindra þau aðgengi að netinu af og til, þyki þeim ástæða til. Til dæmis var aðgangur að vinsælum póstþjónustusíðum eins og Gmail, Hotmail og Yahoo hindraður í febrúar síðastliðnum þannig að tugmilljónir Írana komust ekki inn í tölvupósthólf sín.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert