Ofurmáni á himni í nótt

Það er víst að tunglið verður tilkomumikið í kvöld og …
Það er víst að tunglið verður tilkomumikið í kvöld og nótt. mbl.is/Ómar

Svokallaður ofurmáni verður á næturhimninum í nótt og má gera ráð fyrir að áhugafólk um töfra alheimsins vaki fram eftir til að fylgjast með fyrirbærinu. Heiðskírt verður sunnanlands og vestan í nótt og því góðar aðstæður til stjörnuskoðunar, samkvæmt upplýsingum Veðurstofu Íslands.

Ofurmáni (e. supermoon) verður þegar tungl er fullt og það er á sama tíma næst jörðu á sporbaugi sínum. Tunglið er því um 14% stærra á næturhimninum og 30% bjartara en gengur og gerist á fullu tungli þetta árið. Verður tunglið næst jörðu kl. 4.35 í nótt en mun rísa í suðaustri kl. 21.52 í kvöld.

Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, hvetur fólk eindregið til að horfa til himins í nótt, en svo enginn verði fyrir vonbrigðum bendir hann á að tunglið nú sé aðeins um 1% stærra en það var er það var fullt í síðasta mánuði. Hins vegar sé það 14% stærra en þegar það verður fjærst jörðu þetta árið.

„Í síðasta mánuði var tunglið 1.400 kílómetrum fjær en það er núna. Munurinn á tunglinu milli mánaða verður því ekki mikill, þetta er svona eins og munurinn á 15 og 16 tomma pitsum,“ segir Sævar.

Hann segir þó um að gera fyrir fólk að horfa til himins í kvöld og sérstaklega vegna þess að Venus er óvenju björt á stjörnuhimninum nú um stundir. Er hún nú bjartari en hún hefur verið í átta ár. Venus er smám saman að nálgast sólu og mun ganga fyrir hana í júní nk.

Hættulaus ofurmáni

Ofurmáninn hefur áhrif á sjávarföllin og verður háflóð örlítið meira en venjulega.

Stjörnufræðingar segja ofurmánann algjörlega hættulausan, hann hafi ekki mikil áhrif á jörðina. Hins vegar geti hann verið tilkomumikill á næturhimninum.

„Við vitum að við fullt tungl er háflóð meira en venjulega og sé stormur geta orðið flóð en engar sannanir eru fyrir því að ofurmáninn orsaki jarðskjálfta eða aðrar náttúruhamfarir,“ segir Geza Gyuk, stjörnufræðingur við National Geographic sem vitnað er til í frétt bresku fréttastofunnar Sky um málið.

Síðast varð ofurmáni í mars á síðasta ári og var tunglið þá enn nær jörðu en mun gerast í nótt.

Munurinn á stærð ofurmánans í mars 2011 og venjulegu fullu …
Munurinn á stærð ofurmánans í mars 2011 og venjulegu fullu tungli í desember 2010. Af vef Wikipedia
Hesti riðið fyrir ofumánann í Montana í Bandaríkjunum.
Hesti riðið fyrir ofumánann í Montana í Bandaríkjunum. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina