Rússar senda þrjá út í geim

Þrír geimfarar, tveir Rússar og einn Bandaríkjamaður, lögðu upp í geimferð til Alþjóðageimstöðvarinnar í morgun. Farartækið var rússnesk geimflaug af gerðinni Soyuz og þetta er fyrsta mannaða geimför Rússa í fimm mánuði.

Rússar eru nú eina þjóðin sem getur sent geimfara til Alþjóðageimstöðvarinnar.

Allt í allt verða geimfararnir, þeir Joseph Acaba, Gennadí Padalka og Sergei Revin, úti í geimnum í 126 daga og stendur til að þeir geri 40 tilraunir af ýmsum toga.

Flauginni var skotið á loft frá Baikonur-skotpallinum í Kasakstan og gekk geimskotið eins og best verður á kosið. Búist er við að geimfararnir komist á áfangastað á fimmtudagsmorgun, en áætlaður ferðatími er tveir sólarhringar. Þrír geimfarar eru fyrir í geimstöðinni; Rússinn Oleg Kononenko, bandaríski geimfarinn Don Pettit og Hollendingurinn Andre Kuipers. Þeir hafa verið í stöðinni í næstum því fimm mánuði, síðan í desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert