Elsta veggjalist heims

Listaverk, máluð á veggi hella á nokkrum stöðum á Spáni, hafa nú verið viðurkennd sem elstu verk af þessum toga í heiminum. Nýjar rannsóknir benda til að elstu verkin hafi verið máluð fyrir yfir 40 þúsund árum.

Þekktustu verkin eru m.a. af höndum, sem málningu af einhverjum toga hefur verið úðað umhverfis. „Eitt þessara verka er yfir 37.300 ára gamalt og annað verk þar sem sömu tækni er beitt er eldra en 40.800 ára gamalt,“ segir Alistair Pike frá Bristol-háskóla en rannsóknarniðurstöðurnar voru nýverið birtar í vísindatímaritinu Science.

Samkvæmt aldursgreiningunni eru verkin því þau elstu í Evrópu og í öllum heiminum, þ.e.a.s. af þeim sem hafa fundist og verið aldursgreind.

Greiningin er í takt við rannsóknir á því hvenær fyrstu mennirnir (Homo Sapiens) hófu búsetu í Evrópu, en það er talið hafa verið fyrir um 41 þúsund árum. Áður höfðu forfeður mannsins, Neanderthals-menn (Homo neanderthalensis), haldið þar til.

Ef þessir fyrstu menn voru listamennirnir hafa þeir tekið til við að skreyta hella sína fljótlega eftir komuna til álfunnar. Hafi hins vegar forfeður þeirra, Neanderthals-mennirnir, verið að verki, er það vísbending um hegðun þeirra og getu.

Vísindamenn eru  því mjög spenntir að halda rannsóknunum áfram og athuga hvort þeir geti fundið eldri listaverk og þar með sannað að forfeður mannsins hafi verið listrænir og skapandi.

Telja þeir að hellamyndirnar þekktu geti hjálpað til við að setja þróun mannsins í meira samhengi en hingað til hefur verið mögulegt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert