Snædrekinn kemur til Íslands í gegnum Norður-Íshafið

Snædrekinn er 167 m að lengd og 23 m að …
Snædrekinn er 167 m að lengd og 23 m að breidd, ísþol hans er skráð sem B1 og hann getur farið í gegnum ís sem er a.m.k. 1,1 m. þykkur. Um borð eru þrír rannsóknabátar og þyrla.

Kínverski ísbrjóturinn Snædrekinn (Xuě Lóng) lagði af stað þann 2. júlí sl. frá Qingdao í Kína í fimmta vísinda- og rannsóknarleiðangur Kínverja á norðurslóðir, sem kallast CHINARE 5. Í leiðangrinum mun Snædrekinn fara svonefnda norðausturleið meðfram Rússlandi og Noregi og hafa viðkomu á Íslandi í ágúst í boði íslenskra stjórnvalda.

Fram kemur í tilkynningu frá Rannís, að ferðin til Íslands muni styrkja enn frekar rannsóknasamstarf landanna tveggja á sviði norðurslóðarannsókna. Í heimsókn Snædrekans muni almenningi á Íslandi, bæði í Reykjavík og á Akureyri, gefast kostur á að skoða þennan stærsta ísbrjót heims sem ekki er kjarnorkuknúinn.

„Tveir Íslendingar munu taka þátt í leiðangri Snædrekans. Í siglingu ísbrjótsins frá Kína til Íslands, mun Egill Þór Níelsson, gistifræðimaður hjá Heimaskautastofnun Kína, vera með í för þar sem hann mun vinna að verkefni í tengslum við norðurslóðasiglingar en Ingibjörg Jónsdóttir, dósent við Háskóla Íslands, mun taka þátt í síðari hluta leiðangursins og rannsaka hörfun og ástand hafíss á norðurslóðum.  Arctic Portal á Akureyri (www.arcticportal.org) mun halda úti sérstöku vefsvæði um leiðangurinn og birta upplýsingar um ferðina eins reglulega og aðstæður um borð leyfa hverju sinni,“ segir í tilkynningu.

Þá segir að margvíslegar rannsóknir muni fara fram í þessari tímamótasiglingu en þetta sé fyrsti kínverski rannsóknarleiðangurinn sem fari Norðausturleiðina.

„Um borð er 120 manna áhöfn og meðal þess sem rannsakað verður eru áhrif loftlagsbreytinga á norðurheimskautsísinn og vistfræðilegt ástand svæðisins. Innanborðs eru 60 vísindamenn frá hinum ýmsu stofnunum og háskólum og koma fimm þeirra utan meginlands Kína. Rannsóknasvið þeirra skiptast í fjögur meginsvið: 1. hafeðlisfræði (þ.m.t. hafís og sjávarveðurfræði), 2. sjávarjarðfræði, 3. efnafræði sjávar og andrúmslofts og 4. sjávarlíffræði og vistkerfi sjávar. Aðrir þátttakendur í leiðangrinum eru umsjónaraðilar, fréttafólk og almennir áhafnarmeðlimir,“ segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert