Forvitni í gömlum árfarvegi

Á myndinni sem Forvitni tók sést klöpp með smásteinum sem …
Á myndinni sem Forvitni tók sést klöpp með smásteinum sem vísindamenn telji að hafi slípast til í vatni. NASA

Sjö vikur eru liðnar síðan Marsjeppinn Forvitni (e. Curiosity) lenti á yfirborði Mars og nú þegar hefur hann safnað gögnum sem renna stoðum undir þá kenningu að vatn hafi áður fyrr runnið um rauðu plánetuna.

Nýjustu myndirnar frá Forvitni sýna kletta gerða úr grjóti og sandi og segja vísindamenn að stærð og lögun smásteinanna í klettinum bendi til þess að þeir hafi slípast til í rennandi vatni. Telja þeir að jeppinn hafi fundið forna árfarvegi. 

Á stuttum blaðamannafundi sem NASA boðaði til í dag kom fram að vísindamennirnir teldu líklegt að steinarnir hefðu legið á yfirborðinu í milljarða ára. Rennandi vatn kynni þó að hafa runnið um yfirborðið á löngum tímabilum.

Gervihnattamyndir af Mars hafa lengi sýnt skurði á yfirborðinu sem vel má ímynda sér að hafi myndast í einhvers konar streymi, sem gengið er út frá að hafi verið rennandi vatn. Ljósmyndirnar sem Forvitni tók styrkja þessa kenningu.

Vísindamennirnir rannsaka nú myndirnar af gaumgæfni og segja að stærð og lögun smásteinanna muni geta gefið vísbendingar um hversu hratt vatnið rann á sínum tíma og um hve langa vegu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert