Júpíter hátt á himni skín

Gasrisinn Júpíter.
Gasrisinn Júpíter.

Vel ber í veiði fyrir áhugafólk um stjörnuskoðun þessa dagana því að nú er Júpíter sérlega áberandi á himni. Þessi stærsta reikistjarna sólkerfis okkar sást ekki jafn vel héðan fyrr á árinu þar sem hún var svo sunnarlega á himinhvolfinu, en hefur nú færst norðar.

„Hann er mjög bjartur, fallegur og áberandi á himninum þessa dagana. Þetta er bjartasta stjarnan á kvöldhimninum og það er ekkert mál að sjá hann með berum augum. Hann blasir við þegar hann kemur upp á himininn og er yfirleitt orðinn býsna áberandi á austurhimni um miðnætti ,“ segir Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness.

„Hann er skærastur þegar hann er í gagnstöðu,“ segir Sævar, en með gagnstöðu er átt við þegar stjarna er beint á móti sólu frá jörðu séð. Júpíter verður næst í gagnstöðu í desember og verður þá sífellt bjartari og bjartari er nær dregur þeim tíma.

„Það er virkilega gaman hvað Júpíter er greinilegur núna. Hann hefur ekki sést vel frá Íslandi síðustu ár, hann var sunnarlega á himinhvolfinu og fólk tók ekki svo vel eftir honum. En núna er hann kominn norðar og er nú talsvert meira áberandi á himninum yfir Íslandi,“ segir Sævar

Árrisulir geta einnig notið fegurðar Júpíters. „Þeir sem taka daginn snemma, ættu að líta til suðurs, en Júpíter er þá bjartasta stjarnan í suðurhimni. Venus er þá bjarta stjarnan í austri og þar með má sjá tvær bjartar reikistjörnur,“ segir Sævar.

Júpíter er fimmta reikistjarnan frá sólu og sú langstærsta í sólkerfinu. Stjarnan er gasrisi, stór reikistjarna sem er að mestu gerð úr gasi, en þó líklega með kjarna úr bergi eða málmi. Aðrir gasrisar eru Satúrnus, Úranus og Neptúnus.

Tilvalið er fyrir áhugafólk um stjörnufræði og -skoðun að heimsækja bloggsíðu Stjörnufræðivefsins, en þar hóf nýlega göngu sína vefþáttaröðin Sjónaukinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert