Apple tapaði áfrýjunarmáli í Bretlandi

Apple iPad spjaldtölva (t.v.) við hlið Samsung Galaxy spjaldtölvu.
Apple iPad spjaldtölva (t.v.) við hlið Samsung Galaxy spjaldtölvu. AFP

Bandaríska tæknifyrirtækið Apple hefur tapað áfrýjunarmáli í Bretlandi gegn suðurkóreska fyrirtækinu Samsung. Apple hélt því fram að við hönnun Galaxy Tab spjaldtölva hafi Samsung hermt eftir útliti iPad-spjaldtölvunnar, sem kemur úr smiðju Apple.

Í júlí sl. komst dómari við hæstarétt Bretlands að Galaxy-spjaldtölvan væri ekki of lík iPad-tölvunni og hefur áfrýjunardómstóll nú staðfest úrskurðinn. Dómarinn komst hins vegar svo að orði í sumar að Samsung tækin væru ekki eins „svöl“ því þau væru ekki eins einföld í notkun eins og tækin frá Apple.

Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins að Apple þurfi því að áfram að birta auglýsingar þar sem fram kemur að Samsung hafi ekki brotið gegn höfundarrétti Apple. Á heimasíðu Apple verður að vera tengill þar sem vísað er í dóminn og verður hann að vera á síðunni í einn mánuð.

Apple hafði jafnframt verið gert að birta auglýsingu í breskum fjölmiðlum og á heimasíðu sinni þar sem þær rangfærslur væru leiðréttar að Samsung væri að herma eftir Apple. 

Talskona Samsung fagnar niðurstöðunni. Hún segir að fyrirtækið sé enn þeirrar skoðunar að Apple hafi ekki verið fyrsta fyrirtækið sem hafi hannað rétthyrnda spjaldtölvu með ávöl horn. Hún segir ennfremur að hönnunin sem Apple hafi fengið skráða sé ekki ný af nálinni og megi sjá víða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert