Ekki sýnt fram á skaðsemi erfðabreytts maíss

Maís
Maís AFP

Tveir hópar franskra vísindamanna hafa hafnað rannsókn sem vakti mikla athygli, en jafnframt gagnrýni, þar sem fylgni var sögð milli neyslu á erfðabreyttum maís og æxlamyndunar hjá rottum. Vísindamennirnir segja þó að tilefni sé til ítarlegri rannsókna á málinu.

Frönsk stjórnvöld óskuðu eftir því að tvær stofnanir í landinu, annars vegar á sviði líftækni (HCB) og hins vegar á sviði matvælaöryggis (ANSES), færu yfir réttmæti rannsóknarinnar umdeildu, en niðurstöður hennar voru birtar í tímaritinu Food and Chemical Toxicology í september og ollu talsverðu fjaðrafoki. 

Rannsóknin sneri að erfðabreyttum maís frá matvælaframleiðandanum Monsanto, notkun þeirra á Roundup-plöntueitri og dánartíðni rotta sem átu maísinn. Var því haldið fram að erfðabreyttur maís og Roundup í drykkjarvatni trufli hormónastarfsemi og valdi krabbameini og dauða í rottum.

Vísindamenn við stofnanirnar tvær komust hins vegar að þeirri niðurstöðu að enginn grundvöllur væri fyrir þeirri fullyrðingu. „Rannsóknin sýnir ekki með vísindalegum hætti fram á að greind hafi verið fylgni milli NK603 maíss og áhrifa á heilsufar, hvort sem notað var Roundup eða ekki,“ segir í niðurstöðu 66 vísindamanna HCB-stofnunarinnar. Stofnunin var sett á fót árið 2009 sem sjálfstæður eftirlitsaðili.

Í skýrslu ANSES-stofnunarinnar, sem unnin var óháð rannsókn HCB, segir sömuleiðis að gögnin sem rannsóknin byggist á séu ófullnægjandi og styðji ekki við þær ályktanir sem höfundar rannsóknarinnar dragi. Ekki sé með vísindalegum rökum hægt að sýna fram á orsakasamhengi líkt og haldið sé fram. 

Báðar stofnanir kalla engu að síður eftir því að umfangsmeiri rannsóknir verði gerðar á málinu, til að upplýsa almenning þar sem deilurnar hafi vakið efasemdir margra. HCB-stofnunin segir að skoða þurfi hvort neysla maíssins hafi langtímaáhrif á heilsu. ANSES hvetur til þess að skoðuð verði sameiginleg áhrif NK603-maíss og Roundup.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert