Einn fágætasti hvalur heims sást loks

Hér má sjá hval sem er mjög líkur þeim fágætasta.
Hér má sjá hval sem er mjög líkur þeim fágætasta.

Heimsins fágætasti hvalur sást loks er móður og kálf rak á land í Nýja Sjálandi.

Spaðsnjáldri (e. Spade-toothed beaked whale) var uppgötvaður árið 1872 er bein úr dýrinu fundust á Kyrrahafsströnd. Þar til nú hefur þessi fágæti hvalur þó ekki sést, segir í frétt Telegraph.

Á þeim 140 árum sem liðin er frá því að vitað var um tilvist dýrsins hafa bein úr því tvisvar fundist, á sjötta áratugnum við Nýja Sjáland og á þeim níunda við Síle.

Nú loks geta vísindamenn skoðað hvalinn en þeir eru taldir eyða mestum hluta ævi sinnar á miklu dýpi í Kyrrahafinu og aðeins örsjaldan koma upp á yfirborðið.

Móðurina og kálfinn rak á land í desember árið 2010 en vísindamenn héldu að þarna væri að ferðinni mun algengari hvalategund. Það var ekki fyrr en nýverið að DNA-rannsókn leiddi annað í ljós.

Lesa frétt Telegraph um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert