„Útstreymisskrímsli“ frá risasvartholi

Teikning listamanns af risastróknum frá dulstirninu SDSS J1106+1939.
Teikning listamanns af risastróknum frá dulstirninu SDSS J1106+1939. Mynd/ESO

Stjörnufræðingar við stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, ESO, hafa fundið dulstirni með orkuríkasta útstreymi sem sést hefur hingað til, en það er a.m.k. 5 sinnum öflugra en áður hefur sést. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá ESO.

Dulstirni eru þéttir og mjög bjartir kjarnar fjarlægra vetrarbrauta sem knúnir eru áfram af risasvartholum. Mörg þessara svarthola varpa miklu magni efnis frá hýsilvetrarbrautum sínum, en þessi útstreymi leika lykilhlutverk í þróun vetrarbrauta. Þar til nú  bentu mælingar hins vegar ekki til þess að útstreymið væri nokkurn tíma jafn öflugt og kenningar hafa spáð fyrir um, samkvæmt því sem segir í frétt ESO.

Byggt var á mælingum úr VLT sjónaukanum svo nefnda í Atacama-eyðimörkinni í norðurhluta Síle. Sjónum var beint að dulstirni sem kallast því þjála nafni SDSS J1106+1939 og það rannsakað í smáatriðum.

Haft er eftir vísindamanninum Nahum Arav við Virginia Tech-háskólann í Bandaríkjunum að orkan sem flytjist með þessum mikla efnismassa og þýtur á ógnarhraða frá dulstirninu sé a.m.k. 2 milljón milljón sinnum meiri en orkuútgeislun sólar. „Það er aftur um 100 sinnum meira en heildar orkuútgeislun Vetrarbrautarinnar. Þetta er sannkallað útstreymisskrímsli,“ segir Arav. 

Erfitt kann að vera fyrir mannshugann að ná utan um þessar stjarnfræðilegu stærðir en til að setja þetta í enn frekara samhengi bendir Stjörnufræðivefurinn á að þetta eina risasvarthol gefi frá sér meira en 100 sinnum þá orku sem 400 milljarðar stjarna gefa frá sér.

Útstreymið nýfundna er í um þúsund ljósára fjarlægð frá risasvartholinu í hjarta dulstirnisins SDSS J1106+1939. Útstreymið er að minnsta kosti fimm sinnum öflugra en fyrri methafi. Mælingar hópsins sýna að árlega streymir efnismassi sem jafngildir 400 földum massa sólar burt frá dulstirninu á um 8.000 kílómetra hraða á sekúndu.

„Ég hef leitað að einhverju eins og þessu í áratug,“ segir Nahum Arav, „svo það er óneitanlega spennandi að finna loks eitt af útstreymisskrímslum sem búið var að spá fyrir um,“ segir Arav.

Nánar má lesa um rannsóknina á heimasíðu ESO.

mbl.is