Hjónaband gott fyrir hjartað

Gift fólk fær síður hjartaáfall en einhleypt og er líklegra til að jafna sig eftir slíkt áfall, segir í niðurstöðum nýrrar finnskrar rannsóknar.

Vísindamenn söfnuðu upplýsingum um 15.330 Finna á aldrinum 35-99 ára. Fólkið hafði allt fengið hjartaáfall á árabilinu 1993-2002.

Helmingur hópsins hafði látist innan 28 daga frá áfallinu.

Vísindamennirnir komust að því að ógiftir karlmenn óháð aldri voru í 58-66% meiri hættu á að fá hjartaáfall en giftir.

Munurinn var enn meiri er kom að konum. Einhleypar konur og ógiftar voru í 60-65% meiri hættu á að fá hjartaáföll en giftar. Rannsóknin var birt í European Journal of Preventive Cardiology.

Gift fólk af báðum kynjum er einnig ólíklegra til að deyja úr hjartaáfalli.

Vísindamennirnir álykta að hærri tekjur, heilsusamlegri lífsstíll og stærra tengslanet hafi hugsanlega þessi áhrif á gift fólk.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert