Læknaðist af HIV

AFP

Lítil bandarísk stúlka sem fæddist með HIV virðist vera læknuð en fljótlega eftir fæðingu hennar hófst lyfjameðferð á henni sem virðist hafa skilað árangri að sögn lækna.

Á vef breska ríkisútvarpsins kemur fram að stúlkan, sem er nú tveggja og hálfs árs gömul, fædd í Mississippi, hafi verið án lyfja við HIV í um það bil eitt ár og er hún ekki með nein merki smits. Kemur fram í fréttinni að gera þurfi frekari rannsóknir á áhrifum lyfjameðferðar á svo ung börn. Niðurstaðan getur hins vegar leitt til þess að hægt verði að lækna börn sem fæðast HIV smituð. Ef stúlkan verður áfram heilbrigð er hún annað dæmið í heimunum um að fólk hafi læknast af HIV, samkvæmt frétt BBC.

Árið 2007 varð Timothy Ray Brown fyrstur til þess að læknast af HIV svo vitað sé en hann fékk mergskipti vegna meðferðar við hvítblæði. Merggjafinn var með óvenjulegt mótefni gegn HIV.

Litla stúlkan fékk lyfjablöndu sem notuð er við HIV smiti í börnum en talið er að lyfin hafi náð að virka áður en smitið náði um allan líkamann. 

mbl.is

Bloggað um fréttina